Snjallsamningur er forrit sem lifir á bálkakeðju og keyrir við ákveðin tilefni. Snjallsamningar voru fyrst kynntir til sögunnar á Ethereum bálkakeðjunni árið 2015 en síðan þá hefur orðið mikil þróun í snjallsamningum og allar helstu bálkakeðjur bjóða upp á snjallsamninga nú til dags. Snjallsamningar eru oft opnir og geta forritarar því staðfest með 100% áreiðanleika hvað þeir munu gera. Þetta leiðir til þess að snjallsamningar eru oft notaður sem milliliður þar sem ekkert traust þarf að vera til staðar á milli aðila (e. trustless) og aðilar vita jafnvel ekki af hvor öðrum. Báðir aðilar geta hins vegar skoðað kóða snjallsamningsins og geta því staðfest um útkomu forritisins með sjálfstæðum hætti. 

Taka má einfalt dæmi um snjallsamning sem leyfir aðilum að veðja um niðurstöðu í fótboltaleik. Báðir aðilar leggja fjármagn inn í snjallsamninginn fyrir leikinn en snjallsamningurinn sækir upplýsingar um niðurstöðu leiksins með sjálfvirkum hætti og greiðir sigurvegaranum út eftir að niðurstaða leiksins liggur fyrir. Snjallsamningurinn þarf litla sem enga þóknun að undanskildum hefðbundnum færslugjöldum á bálkakeðjunni og notendurnir sleppa við að borga há gjöld sem þeir hefðu annars þurft að standa undir hjá hefðbundnum veðbókara. 

Framangreint er einfalt dæmi um snjallsamning en þróunin hefur leitt af sér mun flóknari snjallsamninga sem að nokkru leyti taka að sér hlutverk banka og fjármálastofnanna í dreifistýrðri fjártækni.