Rafmynt hefur verið skilgreint af Orðabók Árnastofnunar sem „alþjóðlegur rafrænn gjaldmiðill“. Í daglegu tali hefur hugtakið oft verið notað um myntir á bálkakeðju þar sem dulkóðun er nýtt til að tryggja örugga greiðslumiðlun. Með tilkomu nýrrar og mismunandi tækni í stafrænum greiðslum hefur þurft að skilgreina nánar mismunandi tegundir stafrænna verðmæta. Í lagalegum skilningi hefur þessu verið skipt í tvo flokka, annars vegar Sýndarfé og hins vegar Rafeyrir.
Rafeyrir er skilgreind sem peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga um greiðsluþjónustu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum. Almennt hefur rafeyrir ekki verið gefin út á bálkakeðjum þó að finna megi dæmi þess, t.d. hjá Monerium.
Sýndarfé er skilgreint sem hvers konar verðmæti á stafrænu formi sem hægt er að nota sem greiðslu eða fjárfestingu og hægt er að miðla, og sem teljast ekki til rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris eða gjaldmiðils sem er gefinn út af seðlabanka eða öðrum stjórnvöldum. Að meginstefnu til er sýndarfé útgefið með atbeina bálkakeðju tækni en Rafkrónur (ISKT) er í þessum flokki.